Shopping cart .innerHTML = '(' + (0) pcs

    Ein af hverjum þremur konum glíma við hárlos eða minni hárþykkt einhvern tímann á ævinni. Það er sem betur fer orðin eðlilegri og opnari umræða um þennan leiða kvilla.

    Það má segja að hárið á þér búi yfir vitneskju um þig sem þú hefur ekki. Það getur gefið merki um aukið magn streituhormóna, hormónaójafnvægi, vítamínskort og fleira. Ef þú finnur fyrir óvenjulega miklu hárlosi gæti hárið á þér verið að reyna að segja þér eitthvað. Það að finna orsök hárlossins er lykilatriði þegar kemur að meðhöndlun.

    Hér förum við yfir algengustu orsakir hárloss.

    Erfðir

    Mörg tilfelli af hárlosi verða vegna erfða og því er vel þess virði að tala við fjölskyldumeðlimi og komast að því hvort þynning hárs sé algeng í stórfjölskyldunni. Hormónatengdur skalli (e. androgenic alopecia) er algengasta tegund hártaps hjá báðum kynjum og verður vegna samverkandi þátta í erfðum og hormónum. Þéttleiki hársins minnkar hægt og rólega í kjölfar þess að þol hársekkja fyrir andrógenum (hormónum sem stjórna hárvexti) minnkar smám saman sem svo gerir það að verkum að hárið verður fíngerðara og veikbyggðara með hverju vaxtarskeiði.

    Óheilbrigður hársvörður

    Þegar kemur að auknum hárvexti er ekki hægt að leggja of mikla áherslu á mikilvægi þess að halda hársverði heilbrigðum. Hársvörðurinn er mikilvægt vistkerfi sem hýsir milljónir örvera sem gegna lykilhlutverki í því að halda hári heilbrigðu. Þessi örveruflóra hefur t.d. áhrif á þéttleika hársins og styrk og líka hversu mikil fylling og líf er í því. Þegar hársvörðurinn er þveginn almennilega, nærður og rétt meðhöndlaður er örveruflóran í jafnvægi og starfar eins og best verður á kosið. Það endurspeglast ekki einungis í vexti heldur einnig í gæðum hvers hárs. Þegar of mikil húðfita eða uppsöfnun verður í hársverðinum (oftast vegna of fátíðrar eða ónógrar hreinsunar) geta hársekkir aftur á móti bæði stíflast og skemmst. Það er því brýnt að finna réttu rútínuna fyrir hársvörðinn ef heilbrigt og sterkt hár á að vera möguleiki.

    Þungun

    Margir einstaklingar upplifa aukið hárlos eftir þungun en sökudólgurinn er estrógen. Við þungun eykst magn estrógens sem lengir tímabilið sem hársekkirnir eru á vaxtarskeiði.

    Estrógenmagnið hríðfellur svo eftir fæðingu sem færir hársekkina yfir á hvíldarskeið sem svo birtist í meira hárlosi. Hárlosið hefst yfirleitt nokkrum mánuðum eftir fæðingu og stendur oftast yfir í þrjá mánuði til hálft ár. Í sumum tilfellum kveikir meðgöngu- og fæðingarstreita á erfðafræðilegri tilhneigingu til hártaps sem gæti krafist meðferðar.

    Aldurinn

    Það er eins og með húðina – hársvörðurinn eldist líka. Að sama skapi eru öldrunareinkenni hársvarðarins einstaklingsbundin. Eftir því sem við eldumst, minnkar hárvöxtur og næstum öll okkar munum upplifa eitthvert hártap. Það er sjaldséð að fólk sé með eins hár um fimmtugt og það hafði sem unglingur. Þvermál hársekkja minnkar, hárið verður þynnra og gisnara og það verður erfiðara að safna síðu hári. Á breytingaskeiðinu hraðast á þessu ferli þar sem hormónasveiflur (þ.m.t. minni framleiðsla á estrógeni og prógesteróni auk hækkaðs styrks eggbússtýrihormóns (ESH)) geta valdið smækkun hársekkja á höfði og þannig leitt til hártaps.

    Streita

    Líffærafræðileg forgangsröðun fer í gang þegar þú upplifir líkamlega eða andlega streitu. Líkaminn útbýtir björgum til nauðsynlegrar starfsemi og lætur það sem minna máli skiptir bíða – hárvöxt til dæmis. Þessi ósjálfráða forgangsröðun getur leitt til TE-hárloss sem er röskun þar sem eðlilegur lífsferill hársins er truflaður og minna hár verður eftir í vaxtarfasa og meira hár færist skyndilega yfir í dvalar- og losunarfasa. Þetta gerist tveimur til þremur mánuðum eftir að áfall kveikir á röskuninni sem lýsir sér sem víðtækt hárlos og hárþynning. Þegar streitan lætur undan síga ætti hárvaxtarferlið, sem betur fer, að hverfa í fyrra horf.

    Næringarójafnvægi og vítamínskortur

    Húðin og þ.m.t. hársvörðurinn er lifandi og virkt líffæri sem þarf næga næringu til að starfa sem best. Ef næringin er ekki nógu góð (þar á meðal nægilega margar hitaeiningar, steinefni, nauðsynlegar fitusýrur og vítamín) hefur það umtalsverð áhrif á hársvörðinn og þar með styrk og byggingu hársins.

    Ef hvert hár er mjög grannvaxið er það oftast merki um skort á járni, D-vítamíni eða B12-vítamíni, eða ónægu próteini í fæðunni. Það síðastnefnda er sérlega mikilvægt þar sem keratín (sem er prótein) er uppbyggingarefni hársins.

    Sumar hárgreiðslur

    Mjög stíf tögl, þéttir hnútar og fléttur setja of mikið álag á hársekkina og þar með getu þeirra til að mynda og viðhalda sterku og heilbrigðu hári. Þetta álag skemmir hársekkina og kemur í veg fyrir að blóðflæði og næringarefni nái niður í botn sekkjanna og að lokum stöðvast starfsemi þeirra. Hártap af þessum völdum er oft staðbundið eftir greiðslum og gerist þá þar sem álagið er mest.

    Ef þig grunar að hárið á þér sé að þynnast, skaltu endilega bóka einstaklingsviðtal hjá hársérfræðingi okkar.

    Are you in the right place?

    Please choose your shop

    Iceland
    ×

    It's more than hair. It's you